Framkvæmdaáætlun 2015–2017

Verum virkar – styrkjum starfið
Félaga- og útbreiðslumál
Unnið verður að eflingu innra starfsins innan DKG og stofnun nýrrar deildar á starfstímabilinu: 
  • Stjórnir deilda hafi jákvæðni að leiðarljósi, hlúi vel að félagskonum og virkni þeirra svo koma megi í veg fyrir brottfall úr deildum. Um leið og þeim er hrósað sem  sýna virkni og mæta vel, er hugað að því af hverju sumar félagskonur eru minna virkar. Spyrja má þar sem það á við: 
    • Af hverju mæta konur ekki á fundi? 
    • Er efni fundanna áhugavert? 
    • Getur deildin breytt einhverju í sínum áherslum svo virkja megi sem flestar konur innan deildarinnar.
  • Fylgja má fundarboði eftir með hringingum til þeirra sem ekki hafa boðað sig tveimur dögum fyrir fund.
  • Fjölga skal félagskonum innan deilda. Þó ekki séu sett viðmið um aldur væntanlegra félagskvenna, sé haft að leiðarljósi að taka inn yngri konur (undir 35 ára) og hafa fjölbreytni sem mesta. Reynsla og menntun nýrra félaga sé af ólíkum uppruna og starfsvettvangur sem breiðastur. Þær deildir sem fámennastar eru stefni að fjölgun um 3-5 konur á starfstímabilinu.
  • Stjórnir deilda kynni sér það efni sem hægt er að fá frá alþjóðasamtökunum til að efla starfið innan deilda
  • Efla félagskonur með því að vekja athygli á þeim og verkefnum sem þær vinna að þegar tilefni gefst til, þakka þeim og hvetja til góðra verka áfram. Biðja félagskonur um innlegg á fundum, það eykur virknina.
  • Hvetja þarf til aukinnar virkni félagskvenna utan deilda svo sem með þátttöku í þingum og öðrum viðburðum landsambandsins og með því að gefa kost á sér til fyrirlestrahalds á erlendum vettvangi samtakanna, í alþjóðanefndir og erlent samstarf. 
  • Formenn sjá um að  félagatalið sé ávallt rétt á vef deildar og komi einnig breytingum til Félaga- og útbreiðslunefndar jafnóðum og þær eiga sér stað. 
  • Forseti sé í góðu sambandi við formenn deilda og félagskonur og hvetji þær til þátttöku í starfi bæði innan og utan deildar 
Samskipta- og upplýsingamál
  • Efla þarf samvinnu og samskipti milli deilda: 
    • Deildir eru hvattar til að efla samvinnu sín í milli, t.d. með sameiginlegum fundum, stofnun vinadeilda, enn frekari skiptum á upplýsingum um starfið í viðkomandi deild, heimsóknum á fundi í öðrum deildum þegar tækifæri gefast. Deildir sameinist um að fara ávorþing/landsambandsþing.
    • Félagskonur bjóði konum úr öðrum deildum en sinni eigin að halda fyrirlestur ef það hentar og nýti þannig mismunandi reynslu hver annarrar
    • Forseti og/eða stjórnarkonur heimsæki allar deildir á kjörtímabilinu og/eða nýti sér fjarfundarbúnað (Skype).
  • Efla þarf upplýsingamiðlun milli félagskvenna og deilda. Nýta þarf þau tækifæri sem eru til staðar nú þegar (vefsíðan, Facebookhópurinn) og huga að fleirum:
    • Hvetja allar félagskonur til að gerast meðlimir í í Facebookhóp samtakanna (bæði þeim íslenska og evrópska) og setja þar inn fréttir bæði af starfi deilda sem og því sem DKG konur eru að fást við einstaklingslega 
    • Deildir nýti betur vefsíður sínar til að birta fréttir úr starfinu og því sem félagskonur eru að fást við
    • Félagskonur eru hvattar til þess að lesa reglulega heimasíður samtakanna sem og Fréttabréfið, News, Bulletin og Euforia. Formenn/stjórnir deilda hafi forgöngu um að vekja athygli á því efni sem þar er að finna
    • Hvetja konur til að senda efni á heimasíður (landsambands og Evrópusíðuna), í Fréttabréf landsambandsins og erlendu blöðin News, Bulletin og Euforia.
    • Fréttir frá forseta/stjórn verði reglulega settar inn á heimasíðuna og á FB
    • Fréttabréfið verði rafrænt en formenn hvattir til að prenta út eintök fyrir þær konur sem ekki nota vefinn.
  • Gera DKG sýnilegra í nærsamfélaginu og víðar. 
    • Senda fréttir í staðarblöð 
    • Hafa skoðanir á fræðslumálum og koma þeim á framfæri
    • Láta gott af sér leiða í fræðslumálum landsins. 
    • Halda mætti einn fund á ári þar sem deildarkonur skiptu með sér að kynna starf sitt og það sem þær bera fyrir brjósti í menntamálum (nokkurs konar vinnustofur) og byðu ungum kennurum á svæðinu að mæta og fræðast. 
Styrkir og endurmenntun
  • Félagskonur eru hvattar til að vera enn virkari við að afla sér sí- og endurmenntunar, bæði formlega og óformlega, í þeim tilgangi að efla hæfni, þroska og þekkingu og auka þannig lífsgæði.
  • Deildir sem og einstakar félagskonur eru hvattar til þess að kynna sér möguleika til styrkveitinga alþjóðasamtakanna til náms og verkefna, bæði innan lands og utan og sækja um þá styrki sem í boði eru.
  • Formenn eru hvattir til að kynna slíka möguleika fyrir deildum.
Laga- og reglugerðarmál
  • Vinna þarf áfram að endurskoðun handbókar og laga og reglugerða í samvinnu við handbókarnefnd (sem á eftir að skipa!) og laganefnd.
  • Kynna laga- og reglugerðarbreytingar snemma og vekja athygli á þeim á vefnum áður en þær fara til samþykktar á aðalfundi. Reyna að fá álit sem flestra félagskvenna á lögum, reglugerðum og handbók.
  • Einstakar deildir og Landssambandið fylgist með gerð laga og reglugerða vegna málefna sem samtökin vilja láta sig varða, svo sem um skólamál og mennta- og menningarmál í íslensku samfélagi og sendir umsagnir sínar og ábendingar til viðkomandi aðila.
Menntamál
  • Landsambandsstjórn veki athygli á leiðtoganámskeiðinu (Stjörnunámskeið) sem Sigrún Jóhannesdóttir sér um. Deildir skoði möguleika á að fá til sín námskeiðið og bjóði jafnvel konum utan deilda þátttöku fyrir hóflegt verð
  • Landsambandsstjórn kynnir laga- og reglugerðarbreytingar snemma og vekur athygli á þeim á vefnum áður en þær fara til samþykktar á aðalfundi. Með því móti verði reynt að fá álit sem flestra félagskvenna á lögum, reglugerðum og handbók.
  • Vorþing verður haldið í Reykjavík 30. apríl 2016. Þingið verði opnað fyrir gestum félagskvenna. Það gefur konum utan samtakanna tækifæri til að njóta þess sem í boði er og kynnast jafnframt samtökunum.
  • Landsambandsþing verður haldið á Akureyri vorið 2017. 
Viðurkenning á framlagi kvenna til samfélagsins
  • Deildir kynni sér sérstakt framlag kvenna til samfélagsins fyrr og nú, t.d. í nærsamfélagi þeirra.
  • Deildir veki athygli á framlagi kvenna til mennta- og menningarmála og ýmissa annarra samfélagsmála í nærsamfélagi þeirra, t. d. með því að heiðra konur á stórafmælum deilda eða með öðrum hætti.
 

Síðast uppfært 11. maí 2017