2. fundur - Jólafundur

Jólafundur Etadeildar 2011

Jólafundur Etadeildar var haldinn í félagi við Alfadeild og Þetadeild í Þjóðmenningarhúsinu laugardaginn 3. desember 2011 kl. 12:00.

Mættar voru frá Etadeild: Anna Magnea, Auður, Bryndís G., Eyrún, Guðbjörg, Guðlaug, Guðrún Hrefna, Jóhanna, Kristín Helga, Kristín Ó., Kristín St., Ólöf, Stefanía, Tanya og gestir okkar Ágústa og Ragnheiður.

Dagskrá var sem hér segir og skiptust formenn deildanna á að stjórna fundinum:

Fundur settur og kveikt á kertum.

Vigdís Finnbogadóttir, sem er heiðursfélagi landssambandsins, var sérstakur gestur fundarins og flutti orð til umhugsunar. Hún ræddi meðal annars um þá svartsýni sem ríkti almennt í þjóðfélaginu og nauðsyn þess að láta hana ekki ná tökum á okkur, sérstaklega vegna barnanna. Hún ræddi um mikilvægi þess að rækta móðurmálið og lagði áherslu á gildi þess að lesa.

Herdís Egilsdóttir kynnti nýútkomna bók sína, Sólarmegin, og hafði frá ýmsu athyglisverðu og skemmtilegu að segja frá sínum langa starfsferli. 

Sigríður Ragna Sigurðardóttir forseti landssambandsins þakkaði fyrir það framtak að halda sameiginlegan jólafund. Hún minnti á ýmis atriði í starfi samtakanna og viðburði sem framundan eru og hvatti konur til þátttöku.

Milli atriða voru sungin jólalög við undirleik Herdísar Egilsdóttur, þar á meðal var aðventusálmur sem hún hefur samið.

Fundi slitið. 

Ekki var annað að heyra en að  almenn ánægja væri með þennan sameiginlega jólafund.

Síðast uppfært 20. jan 2012